Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R. í fótbolta, fór ítarlega yfir bikarúrslitaleikinn við FH í fyrra þegar hann ræddi við Rikka G í Sportinu í kvöld. Kári Árnason hafði sín áhrif í sigri Víkinga þrátt fyrir að spila ekki.
Kári missti af bikarúrslitaleiknum eftir að hafa meiðst í landsleik gegn Albaníu skömmu fyrir leikinn. Hann sat því uppi í stúku á Laugardalsvelli en gagnaðist Víkingum engu að síður vel, að sögn Arnars sem ræddi við Kára í hálfleik. Þá var staðan 0-0 en Víkingar höfðu leikið vel.
„Það er klisja að tala um að gera það sama og í fyrri hálfleik því maður veit að andstæðingurinn er væntanlega að plotta eitthvað í hálfleik um að gera eitthvað allt annað. Kári hjálpaði okkur mjög mikið. Hann var uppi í stúku og var að fylgjast með. Það er allt annað „angle“ að horfa niður á völlinn og sjá leikstöður og hvernig kerfið er að virka, frekar en að vera á hliðarlínunni og sjá þetta ekki nægilega vel. Hann kom og talaði við mig og sagði að þetta liti mjög vel út,“ sagði Arnar.
„Við spiluðum á móti sterkum vindi í fyrri hálfleik sem hjálpaði okkur aðeins en samt ekki. Í seinni hálfleik náðum við oft fínum spilköflum, náðum að halda boltanum vel og leysa úr þeirra pressu. Við reyndum að halda áfram því sama en líka að halda fókus. Það er oft með svona ungt lið að fókusinn fer og þá er voðinn vís,“ sagði Arnar.
Nánar er rætt við hann og helstu augnablik bikarúrslitaleiksins rifjuð upp í innslaginu hér að neðan.