Erlent

„Þegar ránin byrja, þá hefst skothríðin“

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump segir nauðsynlegt að ná tökum á ástandinu í Minneapolis og hótar því að láta skjóta mótmælendur, grípi þeir til rána.
Trump segir nauðsynlegt að ná tökum á ástandinu í Minneapolis og hótar því að láta skjóta mótmælendur, grípi þeir til rána. AP/Evan Vucci

Mótmælendur í Minneapolis fögnuðu ákaft í gærkvöldi er þeir kveiktu í lögreglustöð í borginni. Lögreglustöðin hafði verið yfirgefin þremur dögum áður vegna umfangsmikilla mótmæla, sem breyst hafa í óeirðir á tímum, vegna dauða George Floyd.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tísti um óeirðirnar í morgun og sagði „þessa óþokka“ vanvirða minningu Floyd og það myndi hann aldrei leyfa. Forsetinn gagnrýndi borgarstjóra Minneapolis, sem er demókrati, harðlega og sagði hann þurfa að ná tökum á borginni. Annars myndi Trump senda þjóðvarðliðið gegn mótmælendum og „vinna verkið rétt“.

Trump sagðist einnig hafa rætt við Tim Walz, ríkisstjóra Minnesota, og tilkynnt honum að herinn stæði með honum.

„Verði einhver vandræði munum við taka völdin,“ skrifaði Trump og bætti við: „en þegar ránin byrja, þá hefst skothríðin.“

Uppfært: Twitter hefur dregið úr aðgangi að tístinu vegna þess að það brýtur gegn skilmálum fyrirtækisins.

Sjá einnig: Twitter segir Trump hafa hvatt til ofbeldis

Floyd dó þegar lögregluþjónn hélt honum niðri með því að halda hné sínu á hálsi hans. Hann kvartaði yfir því að ná ekki andanum og bað lögregluþjóninn um að drepa sig ekki. Jafnvel þó vegfarendur kvörtuðu yfir aðferðum lögreglunnar og bentu á þegar Floyd hætti að hreyfa sig, aðhöfðust lögregluþjónarnir ekki.

Sjá einnig: Óeirðir og uppsagnir eftir að svartur maður lést í höndum lögreglu

Hér má sjá frétt MSNBC frá því í nótt, þegar kveikt var í lögreglustöðinni.

Walz kallaði út þjóðvarðliðið í gærkvöldi, að beiðni borgarstjóra Minneapolis, en samkvæmt AP fréttaveitunni er óljóst hvert standi til að senda hermennina. Þeir hafi ekki verið á vettvangi í nótt.

Sjá einnig: „Þeir myrtu bróður minn“

Í tísti sem birt var í nótt stóð að 500 meðlimir þjóðvarðliðsins hafi verið kallaðir út og þeirra verkefni sé meðal annars að tryggja að slökkvilið Minneapolis geti svarað útköllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×