Fyrsta mannaða geimskotið frá Bandaríkjunum í tæpan áratug og allra fyrsta mannaða geimskot einkafyrirtækis, heppnaðist fullkomlega í gærkvöldi. Geimfararnir Doug Hurley og Bob Behnken eru nú á leiðinni til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar en þangað eiga þeir að mæta um klukkan hálf þrjú í dag. Hægt verður að fylgjast með því hér að neðan en eftir að þeir tengjast gemistöðinni munu rúmir tveir tímar líða þar til geimfarið verður opnað.
Eftir að geimförunum var skotið á loft með Falcon 9 eldflaug SpaceX, sneri eldflaugin við og lenti á drónaskipi fyrirtækisins sem heitir Of Course I Still Love You, eða „Auðvitað elska ég þig enn“.
Crew Dragon geimfar SpaceX hélt svo áfram á braut um jörðu og geimfararnir gáfu juku hraðann jafnt og þétt til að ná til geimstöðvarinnar.
Eftir að geimfarið var komið á braut um jörðu gátu þeir Hurley og Behnken farið úr geimbúningum sínum og sendu þeir átta mínútna skilaboð til jarðarinnar þar sem þeir opinberuðu meðal annars að það tiltekna geimfar sem þeir notuðu kallaðist Endeavour.
Þeir sýndu einnig leikföng sem synir þeirra létu þá taka með sér út í geim og ýmislegt annað.
Útlit var fyrir að ekkert yrði af geimskotinu í gær, vegna veðurs, en því hafði áður verið frestað á miðvikudaginn. Það rofaði þó til skömmu fyrir geimskot.
Allt frá því að NASA hætti að nota geimskutlurnar gömlu árið 2011 hafa Bandaríkjamenn treyst á Rússa til að ferja geimfara ríkisins til geimstöðvarinnar og frá henni aftur. Hurley og Behnken eiga að vera um borð í geimstöðinni í allt að fjóra mánuði en það fer eftir því hvenær hægt verður að skjóta næsta hópi geimfara á loft.
Geimskotið í gær var er einn af fyrstu liðum áætlunar ríkisstjórnar Donald Trump sem snýr að því að koma geimförum til tunglsins árið 2024.