Enski boltinn

Sagði „Nei takk“ við Real því honum líkaði ekki við Ramos

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harvey Elliott kom til Liverpool frá Fulham síðasta sumar.
Harvey Elliott kom til Liverpool frá Fulham síðasta sumar. vísir/getty

Harvey Elliott, yngsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, gekk í raðir Liverpool síðasta sumar. Hann hefði hins vegar getað gengið til liðs við Real Madrid ef hann hefði óskað þess.

Elliott var aðeins 15 ára og 174 daga gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Fulham í september 2018 í deildarbikarnum. Það var svo í maí á síðasta ári sem hann lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Gerði það hann að yngsta leikmanni í sögu deildarinnar.

Fulham féll svo niður um deild og Elliott fór í kjölfarið til verðandi Englandsmeistara Liverpool. Áður en hann gekk til liðs við Liverpool var honum boðið á reynslu til spænska stórveldisins Real Madrid.

Samkvæmt heimildum The Athletic fór Elliott til Madrídar og var til að mynda boðið að skoða hinn goðsagnakennda heimavöll Real, Santiago Bernabéu. Í kjölfarið var hann spurður hvort hann vildi hitta Sergio Ramos, fyrirliða Real.

„Nei takk fyrir kærlega, mér líkar ekki vel við hann eftir það sem hann gerði við Mohamed Salah,“ á Elliott að hafa sagt.

Ungstirnið hefur verið Liverpool aðdáandi frá blautu barnsbeini og var á vellinum þegar Ramos tók Mo Salah úr leik er liðin mættust í úrslitum Meistaradeildar Evrópu sumarið 2018. Real vann leikinn og þar með titilinn.

Hinn 17 ára gamli Elliott hefur greinilega misst allt álit á Ramos eftir það og gekk svo á endanum í raðir Liverpool. Hefur hann komið við sögu í einum leik í ensku úrvalsdeildinni en byrjað alls fjóra bikarleiki fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×