Erlent

Framlengja neyðarástand á Spáni í síðasta skipti

Andri Eysteinsson skrifar
Pedro Sanchez hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2018.
Pedro Sanchez hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2018. Getty/NurPhoto

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, hefur staðfest að spænska ríkisstjórnin muni framlengja neyðarástandstilskipun sem gilt hefur á Spáni síðan 14. mars. Guardian greindi frá.

Neyðarástandi var lýst yfir í landinu 14. mars vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins sem hefur farið hörðum höndum um Spán. Sanchez tilkynnti áform sín um sjöttu framlengingu tilskipunarinnar á blaðamannafundi síðdegis í dag. Framlengingin mun vara í tvær vikur og mun vera sú síðasta.

Því mun óbreytt ástand ríkja til 21. júní en spænska þingið á enn eftir að samþykkja framlenginguna en talið er líklegast að tillagan verði samþykkt án vandkvæða.

Á blaðamannafundinum minnti Sanchez Spánverja á að halda einbeitingunni. „Við megum ekki gleyma þeim þúsundum sem hafa látið lífið í faraldrinum. Ég biðla til ykkar um skynsemi og virðingu fyrir reglunum. Við þurfum að halda áfram að endamarkinu til þess að binda enda á þetta neyðarástand. Í dag óskum við eftir síðustu framlengingunni,“ sagði Sanchez og bætti við að aðgerðir yrðu ekki jafn harðar og þær hafa verið undanfarna mánuði.

Sanchez sagði þá að mikilvægt yrði að ferðamannastaðir yrðu brátt opnaðir en greint hefur verið frá því að opnað verði fyrir erlenda ferðamenn í júlí.

27.715 hafa látist í Spáni í faraldrinum en 239.228 hafa greinst með veiruna þar í landi.


Tengdar fréttir

Spánverjar opna landið fyrir ferðamönnum í júlí

Yfirvöld á Spáni hyggjast opna landið að nýju fyrir erlendum ferðamönnum í júlí, þetta tilkynnti spænski forsætisráðherrann Pedro Sanchez í ávarpi sínu sem sjónvarpað var í dag.

Spánverjar opna landið fyrir ferðamönnum í júlí

Yfirvöld á Spáni hyggjast opna landið að nýju fyrir erlendum ferðamönnum í júlí, þetta tilkynnti spænski forsætisráðherrann Pedro Sanchez í ávarpi sínu sem sjónvarpað var í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×