Enski boltinn

Manchester United framlengir lánssamning Ighalo

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Odion Ighalo fagnar ásamt Luke Shaw og Scott McTominay.
Odion Ighalo fagnar ásamt Luke Shaw og Scott McTominay. vísir/getty

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United hefur staðfest að Odion Ighalo verði áfram hjá félaginu þangað til í janúar á næsta ári.

Sky Sports staðfesti þetta fyrir hádegi í dag en þetta hefur legið í loftinu síðustu daga.  Enska félagið hefur einnig gefið út yfirlýsingu þar sem þeir staðfesta að Ighalo verði áfram í herbúðum liðsins.

Þá er talið að nígeríski framherjinn muni skrifa undir framlengingu á samningi sínum við Shanghai Shenhua til ársins 2024. Mun sá samningur gefa Ighalo 400 þúsund pund í vikulaun eða rúmlega 67 milljónir króna.

Þetta þýðir að Ighalo mun missa af nær öllu tímabilinu í kínversku ofurdeildinni sem fer af stað nú í júní. Eftir að í ljós kom að leikmaðurinn myndi eflaust missa töluvert úr leiktíðinni sökum þess að hann er enn í Englandi og ekki víst að hann fengi landvistarleyfi í Kína strax sökum kórónufaraldursins ákvað Shanghai að framlengja lánsamning hans með því skilyrði að hann framlengi samning sinn við félagið.

Ighalo á enn eftir að skora fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en hann er einkar vinsæll meðal stuðningsmanna liðsins, sérstaklega hér á landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×