Enski boltinn

Norskt fótboltafélag búið að ráða Bruce Grobbelaar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruce Grobbelaar fagnar Englandsmeistaratitli Liverpool vorið 1990 þegar hann var í aðalhlutverki hjá liðinu.
Bruce Grobbelaar fagnar Englandsmeistaratitli Liverpool vorið 1990 þegar hann var í aðalhlutverki hjá liðinu. Getty/Dan Smith

Liverpool goðsögnin Bruce Grobbelaar hefur fengið starf hjá norska b-deildarklúbbnum Öygarden FK en hann mun starfa þar sem sérstakur ráðgjafi og markvarðarþjálfari.

Bruce Grobbelaar var aðalmarkvörður Liverpool þegar félagið varð síðast enskur meistari tímabilið 1989-90. Grobbelaar spilaði með Liverpool í þrettán ár (1981-1994) og varð meðal annars sex sinnum Englandsmeistari og Evrópumeistari með félaginu.

„Félagið vill ala upp sína eigin leikmenn og vill safna leikmönnum af þessu svæði til að gefa þeim tækifæri á hæsta stigi. Það er eitthvað sem ég hef alltaf viljað gera og þá líka í Afríku,“ sagði Bruce Grobbelaar við BA.

Bruce Grobbelaar er 62 ára gamall er frá Simbabve í sunnanverðri Afríku. Grobbelaar spilaði á sínum tíma 32 landleiki fyrir Simbabve.

Bruce Grobbelaar býr enn í Liverpool borg en mun ferðast á milli Liverpool og Bergen en Öygarden er rétt fyrir utan Bergen.

Það að Grobbelaar sé kominn til Noregs er ekki alveg upp úr þurru. Kærasta hans, Janne Hamre Karlsen, er einmitt frá Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×