Viðskipti innlent

Samherji kannast ekki við mögulegar handtökur á Íslandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Samherji hefur verið sakaður um að bera fé á namibíska embættismenn til að tryggja sér aflaheimildir þar í landi.
Samherji hefur verið sakaður um að bera fé á namibíska embættismenn til að tryggja sér aflaheimildir þar í landi. Vísir/Sigurjón

Namibísk stjórnvöld hafa ekki verið í sambandi við starfsfólk Samherja vegna spillingarrannsóknar þar í landi eða mögulega aðgerða, að sögn fyrirtækisins. Aðstoðarríkissaksóknari í Namibíu hélt því fram að handtökur á Íslandi væru væntanlegar.

Fjölmiðlar í Namibíu höfðu eftir Ed Marondedze, aðstoðarríkisaksóknara, að rannsókn stæði enn yfir á mútugreiðslum sem tengjast úthlutun á veiðiheimildum í nokkrum löndum og að hann byggist við handtökum á Íslandi og í Angóla. Samherji hefur verið sakaður um að bera fé á embættismenn í Namibíu til að tryggja sér kvóta þar.

Í skriflegu svari Samherja við fyrirspurn Vísis segir að fyrirtækinu sé ekki kunnugt um að namibísk stjórnvöld hafi sett sig í samband við starfsfólk fyrirtækisins í tengslum við rannsóknina eða mögulegar handtökur.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, sagði við Vísi í síðustu viku að embætti hans væri í samskiptum við ríkissaksóknara í Namibíu og að framvinda hafi orðið í réttarbeiðnum sem hafi borist þaðan.

Samherji segir þó í yfirlýsingu sinni að fyrirtækinu sé ekki kunnugt um „tvíhliða samkomulag milli Namibíu og Íslands sem myndi heimila aðgerðir hér á landi gagnvart íslenskum fyrirtækjum eða einstaklingum“.


Tengdar fréttir

Býst við handtökum á Íslandi

Aðstoðarríkissaksóknari í Namibíu er sagður búast við handtökum á Íslandi í rannsókn á mútumáli sem íslenska sjávarútvegfyrirtækið Samherji er sakaður um að tengjast. Dómari veitti saksóknurum lengri tíma til að rannsaka málið í dag.

Beiðnum namibískra yfirvalda miðar áfram hjá héraðssaksóknara

Embætti héraðssaksóknara á í samskiptum við ríkissaksóknara í Namibíu sem rannsakar meint brot í Samherjamálinu svonefnda og framvinda hefur orðið í réttarbeiðnum sem hafa borist að utan, að sögn héraðssaksóknara. Einn namibísku rannsakendanna kvartaði undan því að Ísland og þrjú önnur ríki hefðu enn ekki verið hjálpleg við rannsóknina í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×