Enski boltinn

Telja Bruno lykilinn að ná því besta úr Pogba

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Paul Pogba er við það að snúa aftur í lið Manchester United.
Paul Pogba er við það að snúa aftur í lið Manchester United. EPA-EFE/WILL OLIVER

Enski miðillinn Dailymail greinir frá því að þeir sem öllu stjórna hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United vonist til þess að innkoma Bruno Fernandes í liðið muni ná því besta úr franska miðvallarleikmanninum Paul Pogba.

Í kjölfarið vonast forráðamenn félagsins að Pogba skrifi undir nýjan samning.

Pogba hefur verið að glíma við meiðsli nær allt tímabilið og þurfti að fara í aðgerð á ökkla fyrr í vetur. Nú er hann loks orðinn leikfær og ætti að ná endaspretti ensku úrvalsdeildarinnar þar sem deildinni var frestað vegna kórónufaraldursins. 

Enska úrvalsdeildin fer af stað þann 17. júní næstkomandi og stefnt er að því að ljúka henni helgina 25. til 26. júlí. Það verður því leikið þétt.

Pogba hefur verið orðaður frá Old Trafford nánast frá því hann gekk aftur í raðir félagsins frá ítalska stórliðinu Juventus sumarið 2016. Nú segja heimildir Dailymail að Portúgalinn Fernandes sé lykillinn að því að Pogba spili eins og hann best getur.

Þá er talið að forráðamenn United vilji framlengja samning miðjumannsins þar sem hann rennur út sumarið 2021. United hefur þó alltaf möguleikann á að framlengja samninginn um ár.

Man United er sem stendur í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 45 stig þegar 29 umferðum er lokið. Félagið var á góðu skriði áður en öllu var skellt í lás vegna kórónuveirunnar, þar spilaði Fernandes stórt hlutverk en hann hefur blómstrað í rauða hluta Manchester-borgar.

Nú bíða stuðningsmenn Man Utd, allavega sumir, með vatn í munninum eftir því að sjá Bruno og Pogba leika listir sínar saman á miðju félagsins. Þá er Marcus Rashford einnig orðinn leikfær eftir meiðsli í baki og verður áhugavert að sjá hvort liðið nái að klífa upp töfluna í þeim níu umferðum sem eru eftir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×