Íslenski boltinn

Guðmundur skoraði fimm á Selfossi | ÍR og Njarðvík áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur lék sína fyrstu leiki með Selfossi 2018, þá aðeins fimmtán ára.
Guðmundur lék sína fyrstu leiki með Selfossi 2018, þá aðeins fimmtán ára. mynd/arnar helgi magnússon

Guðmundur Tyrfingsson gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk er Selfoss komst áfram í 2. umferð Mjólkurbikarsins eftir 5-0 sigur á Snæfell á Selfossi í dag.

Guðmundur, sem er sautján ára gamall, skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik. Þriðja markið kom á 48. mínútu og síðustu tvö mörkin gerði hann af vítapunktinum á síðustu tíu mínútunum.

ÍR, sem leikur í 2. deild eins og Selfoss, vann 3-1 sigur á 4. deildarliði KÁ. Gunnar Óli Björgvinsson og Axel Kári Vignisson komu ÍR í 2-0 á fyrstu 25 mínútunum en Aron Hólm Júlíusson minnkaði muninn fyrir KÁ á 77. mínútu. Ísak Óli Helgason innsiglaði sigurinn í uppbótartíma.

Njarðvík vann svo 4-0 sigur á 4. deildarliði Smára í Fagralundi en margar kempur, til að mynda Kári Ársælsson og Þórður Steinar Hreiðarsson, leika með Smára. Atli Freyr Ottesen Pálsson gerði tvö mörk og þeir Bergþór Ingi Smárason og Andri Gíslason sitt hvort markið.

Öll úrslit og markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×