Erlent

Ríkisstjórn Bolsonaro skipað að birta tölfræði um faraldurinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolsonaro sakaði fjölmiðla um að reyna að skapa glundroða í kringum kórónuveiruna í dag. Hæstaréttardómari gerði hann afturreka með að hætta að birta heildartölfræði um faraldurinn.
Bolsonaro sakaði fjölmiðla um að reyna að skapa glundroða í kringum kórónuveiruna í dag. Hæstaréttardómari gerði hann afturreka með að hætta að birta heildartölfræði um faraldurinn. Vísir/EPA

Hæstaréttardómari í Brasilíu skipaði ríkisstjórn Jairs Bolsonaro forseta að halda áfram að birta tölfræði um kórónuveirufaraldurinn. Ríkisstjórnin hefur verið sökuð um að hylma yfir alvarleika faraldursins með því að hætta að birta heildartölur yfir fjölda látinna og smitaðra.

Heilbrigðisráðuneytið fjarlægði skyndilega heildartölurnar af opinberri vefsíðu um helgina. Bolsonaro hélt því fram að tölurnar gæfu ekki rétta mynd af umfangi faraldursins og stuðningsmenn hans að tölurnar væru ýktar. Sérfræðingar hafa hins vegar varað við því að opinberar tölur hafi líklega vanmetið raunverulegan fjölda smitaðra og látinna vegna þess hversu lítil skimun hefur farið fram.

Ákvörðunin um að hætta að birta tölfræðina vakti þegar harða gagnrýni og líktu sumir henni við þöggun í alræðisríkjum eins og Norður-Kóreu og Venesúela. Bolsonaro hefur ítrekað gert lítið úr faraldrinum og hamast gegn aðgerðum til þess að takmarka útbreiðslu veirunnar.

Tveir stjórnarandstöðuflokkar kærður ákvörðunina og í gærkvöldi gaf hæstaréttardómari ríkisstjórninni tveggja sólarhringa frest til þess að byrja að birta tölfræðina í heild aftur, að sögn The Guardian.

Brasilískir fjölmiðlar tóku höndum saman um að halda utan um tölfræðina eftir að heildartölurnar hættu að birta á laugardag. Þeir áætla að rúmlega 37.000 manns hafi látist í landinu í faraldrinum og tæplega 711.000 smitast.


Tengdar fréttir

Hætta að birta heildartölur um látna og smitaða í Brasilíu

Brasilísk stjórnvöld eru nú sökuð um að reyna að fela raunverulegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins eftir að þau ákváðu að hætta að birta heildartölur yfir fjölda látinna og smitaðra. Opinber vefsíða með upplýsingunum var tekin niður á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×