Íslenski boltinn

Atli Viðar um frestunina í Víkinni: „Sorg­legt að þeir geri þetta í dag“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Davíð Örn Atlason í leik í Víkinni á síðustu leiktíð.
Davíð Örn Atlason í leik í Víkinni á síðustu leiktíð. vísir/bára

Atli Viðar Björnsson, sparkspekingur Pepsi Max-markanna, segir ákvörðun Víkinga sorglega en þeir ákváðu að fresta leik sínum við Fjölni um einn dag þegar fjórir dagar voru í leikinn.

Tilkynnt var um það í gær að leikur Víkingur og Fjölnis fer fram á mánudagskvöldið en ekki sunnudag og við sama tilefni var leikur FH og HK færður síðar um kvöldið.

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkinga, sagði í samtali við Vísi í gær að þetta væri svo Víkingar kæmu fleira fólki á völlinn en það hefur legið lengi fyrir ekki að einungis 200 hefðu mátt vera í hverju hólfi á sunnudag svo ákvörðunin kom á óvart.

„Mér finnst þetta óskiljanlegt að þetta sé að gerast í dag. Þetta var í umræðunni fyrir 2-3 vikum síðan þegar þríeykið tilkynnti að það væri farið upp í 50 manns á þessum degi. Þá hefði ákvörðunin átt að liggja fyrir á tveimur eða þremur dögum hvort að ætti að gera þetta eða ekki,“ sagði Atli Viðar um ákvörðunina. Markahrókurinn hélt áfram.

„Bara fyrir þjálfaranna. Þú ert að undirbúa liðið í heila viku. Nú eru fjórir dagar í leik og þú ert búinn að tilkynna hvernig þú ætlar að gera þetta. Nú kemur einn auka dagur. Mér finnst þetta rosalega sorglegt að þeir geri þetta í dag og allt að því vanvirðing við allt.“

Annar spekingur þáttarins í gær, Tómas Ingi Tómasson, notaði það orð sem hefur líklega verið hvað mest notað að undanförnu til að lýsa stöðunni.

„Mér finnst þetta fordæmalaust,“ sagði Tómas Ingi í léttum tón. „Ég ætla að nota þetta orð í hverjum einasta þætti en þetta er rosalega skrýtið. Ég bjóst við að öllu yrði seinkað til fimmtánda. Það er eina vitið, því þá komast nógu margir á alla velli.“

Alla umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max-upphitun: Víkingur - Fjölnir frestað



Fleiri fréttir

Sjá meira


×