Yfirvöld í Washington-ríki í Bandaríkjunum svara nú Donald Trump Bandaríkjaforseta fullum hálsi en forsetinn hefur gagnrýnt ríkistjórann og borgarstjóra Seattle-borgar harðlega, fyrir að ganga ekki harðar fram gegn mótmælendum í borginni. Mótmælendur hafa helgað sér ákveðið svæði og lýst yfir einskonar fríríki.
Trump talar um hryðjuverkamenn og hótar hernaðaríhlutun geri lögreglan ekkert í málinu.
Jay Inslee, ríkisstjóri Washington-ríkis, segir að forsetinn eigi ekki að skipta sér af málefnum ríkisins og borgarstjórinn í Seattle segir að hvers konar íhlutun af hendi forsetans jafngilti innrás.
Mótmælin í Seattle hófust eftir dauða George Floyd í Minnesota og voru á tímabili hörð átök við lögregluna í borginni.
Eftir að lögregla gaf eftir og leyfði mótmælendum að helga sér borgarhlutann hafa mótmælin hins vegar farið friðsamlega fram.