Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna harmar ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að refsa starfsmönnum Alþjóðasakamáladómstólsins sem rannsaka mögulega stríðsglæpi bandarískra hermanna í Afganistan. Aðgerðirnar gætu skaðað dómsmál og rannsóknir dómstólsins.
Trump Bandaríkjaforseti skrifaði undir tilskipun í gær sem heimilar að starfsmenn dómstólsins sem koma nálægt rannsókninni verði beitti viðskipta- og ferðaþvingunum.
Rupert Colville, talsmaður mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sagði að fórnarlömb stórfelldra mannréttindabrota og brota gegn mannúðarlögum ættu rétt á sannleikanum og bætum, að því er segir í frétt Reuters.
„Sjálfstæði [Alþjóðasakamáladómstólsins] og geta hans til að starfa án afskipta verður að vera tryggð svo að hann geti skorið úr málum án óviðeigandi áhrifa, hvatningar, þrýstings, hótana eða truflana, beinna eða óbeinna frá hverjum sem er eða af hvaða ástæðu sem er,“ sagði Colville.