Fótbolti

Napoli bika­meistari eftir víta­spyrnu­keppni | Ó­farir Sarri á Ítalíu halda á­fram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik kvöldsins. Ronaldo náði ekki einu sinni að taka víti í vítaspyrnukeppninni.
Úr leik kvöldsins. Ronaldo náði ekki einu sinni að taka víti í vítaspyrnukeppninni. vísir/getty

Napoli er ítalskur bikarmeistari eftir sigur á Juventus í vítaspyrnukeppni. Staðan var markalaus  eftir venjulegan leiktíma. Farið var beint í vítaspyrnukeppni en í henni voru Napoli-menn sterkari.

Leikurinn var afar jafn í venjulegum leiktíma. Liðin voru jafn mikið með boltann, fengu jafn margar hornspyrnur en Napoli átti ellefu skot að marki Juventus á meðan ítölsku meistararnir áttu bara átta skot.

Vítaspyrnukeppnin byrjaði ekki vel fyrir Juventus því Paulo Dybala lét verja frá sér fyrstu spyrnuna. Ekki skánaði það í 2. umferðinni er Danilo skaut boltanum yfir markið en Napoli skoraði úr öllum spyrnum sínum og hafði að lokum betur, 4-2.

Gennaro Gattuso vann því sinn fyrsta bikar með Napoli en Napoli varð síðast bikarmeistari á Ítalíu tímabilið 2013/2014. Ófarir Maurizio Sarri, stjóra Juventus, á Ítalíu halda áfram en hann hefur ekki unnið bikar þar í landi þrátt fyrir mörg ár sem stjóri. Hann vinnur þó væntanlega ítölsku úrvalsdeildina í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×