Enski boltinn

Neitar að spila fyrir Chelsea því hann er á leið í ítölsku úrvalsdeildina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pedro í baráttunni gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton á þessari leiktíð.
Pedro í baráttunni gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton á þessari leiktíð. Jacques Feeney/Getty Images

Pedro Rodriguez vill ekki spila fyrir Chelsea þegar enska úrvalsdeildin fer aftur af stað þar sem hann mun ganga í raðir ítalska úrvalsdeildarfélagsins Roma.

Samkvæmt heimildum The Athletic þá vill Pedro ekki skrifa undir tímabundna framlengingu á samningi sínum við Chelsea sem á að renna út nú í sumar. 

Chelsea þarf á öllum sínum leikmönnum að halda þar sem liðið á níu deildarleiki eftir ásamt því að það mætir Leicester City í 8-liða úrslitum FA bikarsins og er enn í Meistaradeildinni þó liðið sé 3-0 undir eftir fyrri leikinn gegn Bayern Munich.

Hinn 32 ára gamli Pedro hefur engan áhuga á að semja tímabundið þar sem hann hefur nú þegar samið við Roma á Ítalíu. Þar mun hann þéna 56 þúsund pund á viku eða níu og hálfa milljón króna.

Roma leitar að reynslumiklum leikmanni sem getur aðstoðað liðið fram á við. Pedro hefur unnið 25 titla á ferlinum en hann á að fylla skarð Henrikh Mkhitaryan sem hefur aðeins spilað þrettán leiki fyrir félagið vegna meiðsla frá því hann kom á láni frá Arsenal.

Það er ljóst að Chelsea vill ekki halda Pedro lengur en rétt til loka tímabils þar sem liðið hefur þegar samið við Hakim Ziyech, Timo Werner og er orðað við fullt af leikmönnum.

Willian, brasilíski kantmaðurinn í liði Chelsea, hefur heldur ekki skrifað undir tímabundna framlengingu en forraðamenn Chelsea eru bjartsýnir á að það gerist. Var hann í byrjunarliði Chelsea sem vann QPR 7-1 í æfingaleik á dögunum ásamt því að vera á skotskónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×