Enski boltinn

Áhorf á leik Manchester City og Arsenal það mesta í þrjú ár í úrvalsdeildinni

Ísak Hallmundarson skrifar
Gabriel Jesus og Shkodran Mustafi eigast við í leiknum í gær
Gabriel Jesus og Shkodran Mustafi eigast við í leiknum í gær getty/Matt McNulty

Enska úrvalsdeildin hófst aftur í gær eftir rúma þriggja mánaða fjarveru, mörgu fótboltaáhugafólki til mikillar gleði. 

Það virðist mikil eftirvænting hafa ríkt yfir endurkomu þessarar vinsælu deildar, en viðureign Manchester City og Arsenal í gær var með meira áhorf en hefur mælst í yfir þrjú ár í ensku deildinni. Milljónir manna horfðu á leikinn.

Leiknum lauk með þægilegum 3-0 sigri Manchester City en í gær voru akkúrat 100 dagar síðan mótinu var frestað. 3,4 milljónir áhorfenda voru með stillt á leikinn þegar mest var, en meðaláhorf yfir allan leikinn var 3,1 milljón. 

Síðast þegar áhorfendatölur voru svona háar var í janúar árið 2017, á leik Manchester United og Liverpool.

Mesta áhorf sem hefur mælst í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi er hinsvegar á nágrannaslag Manchester United og Manchester City árið 2012, en það var nánast úrslitaleikur um Englandsmeistaratitilinn. 4 milljónir manna stilltu inn á þann leik, en það met er sennilega í hættu um helgina, þegar heil umferð verður spiluð í enska boltanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×