Fótbolti

Spilar á­fram með Messi í Miami

Valur Páll Eiríksson skrifar
Suárez mun spila í það minnsta eitt ár í viðbót með Miamiliðum.
Suárez mun spila í það minnsta eitt ár í viðbót með Miamiliðum. Simon Bruty/Anychance/Getty Images

Úrúgvæinn Luis Suárez framlengdi í dag samning sinn við MLS-meistara Inter Miami í Bandaríkjunum um eitt ár.

Suárez verður 39 ára í næsta mánuði en virðist ekki á þeim buxunum að ljúka ferlinum enn um sinn. Hann skoraði 17 mörk og lagði upp 17 í 50 leikjum fyrir Inter Miami í öllum keppnum á nýliðinni leiktíð þar sem félagið varð MLS-meistari í fyrsta sinn.

Það hrökklaðist úr liðinu eftir titilfögnuðinn þar sem Spánverjarnir Sergio Busquets og Jordi Alba hættu báðir knattspyrnuiðkun. Liðið fékk hins vegar annan Spánverja, Sergio Reguilon, til að fylla skarð Alba í vinstri bakvarðarstöðunni í vikunni.

Argentínumaðurinn Lionel Messi framlengdi þá samning sinn við félagið í október síðastliðnum fram til ársins 2028.

Það hefur gustað um Suárez í Bandaríkjunum, líkt og víðast annarsstaðar þar sem hann hefur komið við á skrautlegum ferli. Hann var dæmdur í níu leikja bann fyrir að hrækja á starfsmann Seattle Sounders í ágúst.

Áður hafði hann sætt banni fyrir að bíta andstæðinga (þrisvar, með Ajax, Liverpool og Úrúgvæ) og fyrir rasísk ummæli í garð Patrice Evra árið 2011.

Suárez samdi við Inter Miami árið 2024 þegar hann kom frá liði Gremio í Brasilíu. Hann hefur skorað 30 mörk í 55 deildarleikjum fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×