Innlent

Flutt á sjúkrahús eftir tvö hjólaslys

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan var hjólandi á Seltjarnarnesi þegar slysið varð.
Konan var hjólandi á Seltjarnarnesi þegar slysið varð. Vísir/vilhelm

Karlmaður og kona voru flutt á slysadeild á áttunda tímanum í gær eftir hjólaslys, konan á Seltjarnarnesi og maðurinn í Breiðholti. Í dagbók lögreglu segir að konan hafi dottið af reiðhjóli sínu og hlotið „aflögun á fingri“. Maðurinn var á bifhjóli en missti stjórn á því og ók á ljósastaur. Hann kenndi eymsla í handlegg eftir óhappið og var því fluttur á slysadeild líkt og áður segir.

Þá hlupu ökumaður bíls og þrír farþegar af vettvangi þegar lögregla stöðvaði þá í miðbænum í gærkvöldi. Allir fjórir voru handteknir skömmu síðar. Grunur er um ölvun við akstur og voru þeir vistaðir í fangageymslu.

Um klukkan hálf tvö í nótt reyndi annar ökumaður sem stöðvaður var í Grafarvogi að hlaupa frá vettvangi. Hann er grunaður um ítrekaðan akstur án ökuréttinda og að fara ekki að fyrirmælum lögreglum. Þá var bíllinn sem hann ók enn á nagladekkjum.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu á hóteli í Hlíðunum á öðrum tímanum í nótt þar sem maður hafði komið inn á hótelið og sofnað í anddyri. Hann var sagður í annarlegu ástandi. Að endingu náðist að vekja hann og færa á lögreglustöð, þar sem hann óskaði eftir gistingu í fangageymslu sökum þess að hann hafði ekki í önnur hús að venda.

Þá var maður fluttur með sjúkrabíl á slysadeild á tíunda tímanum í gærkvöldi eftir að hafa dottið í tröppum og misst meðvitund við fallið. Á sjöunda tímanum var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Vesturbænum grunaður um hótanir. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu.

Tveir menn voru handteknir um klukkan fjögur í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna eftir að tilkynnt var um bílveltu á Vesturlandsvegi. Ekki er vitað um slys á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×