Íslenska ríkið þarf að greiða fyrrverandi maka manns sem handtekinn var fyrir kannabisræktun og þremur börnum hennar miskabætur eftir að lögregla gerði húsleit á heimili þeirra í tengslum við brot mannsins.
Öll gerðu þau kröfu um tveggja milljóna króna miskabætur vegna aðgerða lögreglu í málinu sem rekja má til þess að maðurinn var handtekinn þann 22. nóvember 2018. Maðurinn var handtekinn fyrir utan grunnskóla er hann var að sækja son sinn, einn stefnanda í málinu.
Lögregla hafði grunað að maðurinn væri að rækta kannabisplöntur í sumarhúsi sem þá var heimili hans, fyrrverandi makans, barnanna tveggja og bróður þeirra. Við leit í skúr við sumarhúsið fundust plöntur og tæki til ræktunar.
Í dómi héraðsdóms segir að ekkert bendi til annars en að aðgerðir lögreglu umræddan dag hafi í heild sinni verið lögmætar og meðalhófs gætt.
Engu að síður eigi stefnendur rétt á miskabótum vegna húsleitar samkvæmt lögum um sakamál, þar sem hún feli óhjákvæmilega í sér röskun á friðhelgi einkalífs og heimilis þeirra, þar sem þau hafi ekkert sér til sakar unnið í málinu, en aðgerðir lögreglu umræddan dag beindust gegn manninum.
Alls þarf íslenska ríkið að greiða makanum og syni hennar 75 þúsund krónur og börn hennar tvö fá greiddar 150 þúsund krónur í miskabætur.