Innlent

Greiða at­kvæði um nafn á sam­einuðu sveitar­fé­lagi á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Sameining Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðar, og Borgarfjarðar eystri var samþykkt í kosningum í haust.
Sameining Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðar, og Borgarfjarðar eystri var samþykkt í kosningum í haust. Vísir/Hafsteinn

Íbúar í nýsameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi munu greiða atkvæði um sex nafnatillögur í íbúakönnun sem fram fer samhliða forsetakosningunum á morgun.

Tillögurnar sem til greina koma eru Austurþing, Austurþinghá, Drekabyggð, Múlabyggð, Múlaþing og Múlaþinghá, en atkvæðagreiðslan verður ráðgefandi fyrir nýja sveitarstjórn sveitarfélagsins.

Sameining Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðar, og Borgarfjarðar eystri var samþykkt í kosningum í haust.

Umsögn Örnafnanefndar

Örnefnanefnd skilaði inn umsögn um sautján tillögur að heitum sem Nafnanefnd sveitarfélagsins sendi til umsagnar í febrúar.

Mælti Örnefnanefnd með tveimur heitum – Múlabyggð og Múlaþinghá – en mælti ekki gegn fjórum – Austurbyggð, Austurþingi, Austurþinghá og Múlaþingi.

Austurbyggð kom hins vegar ekki til greina þar sem það sveitarfélag með það nafn hafi orðið til við sameiningu Búðahrepps og Stöðvarhrepps árið 2003. Það sameinaðist svo fleiri sveitarfélögum undir merkjum Fjarðabyggðar árið 2006.

Bættu við Drekabyggð

Undirbúningsstjórnin ákvað svo að bæta við möguleikanum Drekabyggð – heiti sem Örnefnanefnd mælist gegn því að verði fyrir valinu. Í umsögn Örnefnanefndar sagði að ekki væri hefð fyrir því að kenna stór svæði við dreka eða aðrar landvættir, en drekinn er einmitt landvættur Austurlands.

Á vef undirbúningsnefndarinnar segir að kosningaaldur í könnuninni um heiti sveitarfélagsins miðist við sextán ára aldur og geta erlendir ríkisborgarar sem hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum líka tekið þátt.

„Þátttakendum verður boðið upp á raðval með því að velja fyrsta og annan valkost. Niðurstöður eru ekki bindandi og mun ný sveitarstjórn taka ákvörðun um nýtt heiti þegar hún kemur til starfa í október.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×