Innlent

Þota til Egils­staða í kvöld til að flytja veðurteppta

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boeing 757-þota Icelandair í flugtaki af Reykjavíkurflugvelli. Þær taka 184 farþega og eru af og til fengnar til að létta á álagstoppum í innanlandsfluginu.
Boeing 757-þota Icelandair í flugtaki af Reykjavíkurflugvelli. Þær taka 184 farþega og eru af og til fengnar til að létta á álagstoppum í innanlandsfluginu. Vilhelm

Icelandair greip til þess ráðs í kvöld að senda stóra farþegaþotu í innanlandsflugið á leiðinni milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Vegna veðurs hafði ekki tekist að fljúga austur á land frá því á laugardag og því hafði safnast upp stór hópur veðurtepptra flugfarþega.

„Það var til að vinna upp nokkur aflýst flug,“ sagði Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair en Boeing 757-þotan TF-ISR, Ketildyngja, hóf sig til flugs frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 20:30 í kvöld.

„Það var ákveðið að senda 757 til þess að koma farþegum austur. Hún lenti á Egilsstöðum full af farþegum, með um 180 manns,“ sagði Guðni.

Flugtak þotunnar úr Reykjavík var til norðurs og klifraði hún síðan í átt að Hvalfirði áður en stefnan var tekin austur yfir Esjunni. Flugtíminn var 42 mínútur og lenti hún á Egilsstaðaflugvelli klukkan 21:12.

Samkvæmt upplýsingavef Isavia er áætlað að hún lendi aftur á Reykjavíkurflugvelli klukkan 22:48 í kvöld.

Uppfært klukkan 22:40. Flugtak þotunnar frá Egilsstöðum var klukkan 22:37. Núna er koma til Reykjavíkur áætluð klukkan 23:23.

Fjallað var um raskanir í innanlandsfluginu í kvöldfréttum Sýnar:


Tengdar fréttir

Ókyrrð í lægri flughæðum raskar innanlandsfluginu

Aflýsa þurfti fyrsta áætlunarflugi í sögu Norlandair til Vestmannaeyja í dag vegna hvassviðris. Allt innanlandsflug féll niður í gær vegna ókyrrðar í lofti og í dag hefur aðeins tekist að fljúga frá Reykjavík til Akureyrar og Bíldudals. Rétt fyrir fréttir stóðu þó vonir til að Egilsstaðir myndu einnig opnast í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×