Fótbolti

Alfreð og Samúel í tapliðum í lokaumferðinni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Alfreð bar fyrirliðaband Augsburg í lokaleik tímabilsins.
Alfreð bar fyrirliðaband Augsburg í lokaleik tímabilsins. vísir/Getty

Lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar fór fram í dag. Lítil spenna var við toppinn þar sem Bayern Munchen var búið að tryggja sér meistaratitilinn en í botnbaráttunni var mikið undir.

Werder Bremen lyfti sér upp úr næstneðsta sæti deildarinnar með 6-1 sigri á Köln á sama tíma og lærisveinar Uwe Rösler í Fortuna Dusseldorf steinlágu fyrir Union Berlin 3-0. Það þýðir að Dusseldorf er fallið úr deildinni en Werder Bremen á möguleika á að bjarga sæti sínu með því að sigra umspil við þriðja efsta lið B-deildarinnar.

Hoffenheim tryggði sér sæti í Evrópudeildinni með 0-4 sigri á Borussia Dortmund og Borussia Mönchengladbach vann sterkan 2-1 sigur á Herthu Berlin sem færir Gladbach sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári.

Alfreð Finnbogason var í byrjunarliði Augsburg og lék fyrsta klukkutímann í 1-2 tapi gegn RB Leipzig þar sem Timo Werner gerði bæði mörk gestanna í sínum síðasta leik fyrir félagið en hann gengur í raðir Chelsea í sumar.

Samúel Kári Friðjónsson spilaði síðasta hálftímann fyrir Paderborn sem tapaði 3-2 fyrir Eintracht Frankfurt en Samúel og félagar voru fyrir löngu fallnir úr deildinni enda langneðstir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×