Erlent

Græningjar unnu sigra í frönsku sveitar­stjórnar­kosningunum

Atli Ísleifsson skrifar
Anne Hidalgo hefur gengt embætti borgarstjóra Parísar frá árinu 2014 og mun gera það áfram.
Anne Hidalgo hefur gengt embætti borgarstjóra Parísar frá árinu 2014 og mun gera það áfram. EPA

Sveitarstjórnarkosningar fóru fram í Frakklandi í gær þar sem kjörsókn reyndist lítil en stjórnarandstöðuflokkar unnu víða sigra. Græningjaflokkum gekk sérstaklega vel, en hægri popúlistaflokkurinn Þjóðfylkingin vann einnig sigur í stóru sveitarfélagi.

Sósíalistinn Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, verður áfram borgarstjóri og sagði kjósendur hafa greitt atkvæði með voninni og þeirri vegferð að gera París að borg sem „andi“ og að borg þar sem gott sé að búa í og enginn sé skilinn útundan.

Hidalgo hefur stýrt borginni frá árinu 2014 og vakið athygli fyrir stefnu sína, sér í lagi í umhverfismálum. Hún hefur unnið markvisst að því að takmarka bílaumferð miðsvæðis í borginni.

BBC segir frá því að græningjaflokkar hafi unnið mikla og nokkuð óvænta sigra meðal annars í stórborgunum Marseille, Lyon, Besançon, Nancy, Bordeaux og Strasbourg.

Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar fór síðari umferð kosninganna fram heilum þremur mánuðum eftir þá fyrri og reyndist kjörsóknin nú lág, eða 40 prósent og hefur aldrei verið minni.

LREM, flokkur Emmanuel Macron forseta, tókst ekki að vinna sigur í nokkurri stórborg, en vitað var að flokkurinn nýtur ekki nærri því eins mikilla vinsælda á sveitarstjórnarstigi og hann gerir á landsvísu.

Þá vakti athygli að fulltrúi Þjóðfylkingarinnar, flokks Marine Le Pen, vann sigur í stóru sveitarfélagi – Perpignan í suðurhluta landsins, með sína 120 þúsund íbúa. Er þetta í fyrsta inn í tvo áratugi sem flokkurinn vinnur sigur í sveitarfélagi með yfir 100 þúsund íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×