Enski boltinn

Segir Alonso vera ástæðu þess að Chelsea tapaði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alonso ætti mögulega að einbeita sér að varnarleik frekar en bakfallsspyrnum.
Alonso ætti mögulega að einbeita sér að varnarleik frekar en bakfallsspyrnum. EPA-EFE/Michael Regan

Gary Neville, sparkspekingur Sky Sports á Englandi, kenndi spænska bakverðinum Marcos Alonso nær alfarið um 3-2 tap Chelsea gegn West Ham United í gærkvöld.

Mikið hefur verið rætt um vinstri bakvarðarstöðuna hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea undanfarið. Þrálátir orðrómar eru varðandi möguleg vistaskipti Ben Chilwell úr Leicester City í Chelsea.

Frammistaða Marcos Alonso í óvæntu 3-2 tapi Chelsea í gær var ekkert að fara minnka þá orðróma en Alonso átti skelfilegan leik. Með sigri hefði Chelsea hoppað yfir Leicester í töflunni en lærisveinar Brendan Rodgers hafa engan veginn náð vopnum sínum eftir að úrvalsdeildin fór aftur af stað.

Spánverjinn virðist einfaldlega ekki fær um að spila sem vinstri bakvörður eftir að hafa blómstrað sem vængbakvörður þegar Antonio Conte var við stjórnvölin á Brúnni.

Gekk Gary Neville svo langt að kenna Alonso nær alfarið um tapið. Liðið missti boltann og West Ham sótti hratt í svæðið sem Alonso skildi eftir sig. Andriy Yarmolenko nýtti sér það pláss sem hafði myndast í fjarveru Alonso og tryggði West Ham öll þrjú stigin við mikinn fögnuðu David Moyes.

„Horfið á hann, hvað er hann að gera? Hann er jafn Yarmalenko þegar skyndisóknin hefst en hann nennir ekki að hlaupa til baka. Þú hleypur til baka eins hratt og þú getur þegar liðið þitt tapar boltanum. Þetta er eitthvað sem þú lærir þegar þú ert sex ára gamall,“ sagði Neville þegar hann fór yfir leikinn á Sky í gær.

Neville ætti að vita eitthvað um stöðu bakvarðar en hann lék nær allan sinn feril sem hægri bakvörður Manchester United og enska landsliðsins. Lék hann 85 landsleiki fyrir England, enginn hægri bakvörður á fleiri. Þá vann hann 20 titla á ferli sínum sem leikmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×