Íslenski boltinn

Óvissa hvort nýir leikmenn Fjölnis fari í sóttkví

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Fjölnis og Stjörnunnar í sumar.
Úr leik Fjölnis og Stjörnunnar í sumar. Vísir/HAG

Nýliðar Fjölnis í Pepsi Max deildinni nældu sér í tvo erlenda leikmenn á lokadegi félagaskiptaluggans. Óvissa ríkir hjá félaginu hvort senda eigi leikmennina í sóttkví eður ei.

Grótta fékk einnig erlendan leikmann á lokadegi gluggans og sendi hann rakleiðis í sóttkví.

„Það hefur ekki verið tekin nein formleg ákvörðun. Daninn kom til landsins í gær og Ungverjinn skömmu áður og voru þeir báðir prófaðir. Bæði prófin reyndust neikvæð,“ sagði Kolbeinn Kristinsson formaður knattspyrnudeildar Fjölnis í viðtali við mbl.is fyrr í dag.

Þá hefur Christian Sivebæk, danski framherjinn sem Fjölnir fékk frá Viborg, verið skimaður vikulega hjá Viborg og því telja forráðamenn Fjölnis nær öruggt að hann geti ekki verið smitaður.

„Það verður þjálfarateymið sem tekur ákvörðun um það hvort þeir spili gegn Fylki. Satt best að segja veit hreinlega ekki hvort það sé okkar að ganga framar en lögin kveða á um en það er ekkert klippt og skorið í þessu og sem dæmi þá hefðu þeir að sjálfsögðu farið í sóttkví ef þeir hefðu ekki prófast neikvæðir,“ sagði Kolbeinn einnig í samtali sínu við mbl.is.

„Öll þessi félagaskipti hafa gerst ansi hratt og því kannski ekki gefist tími til að njörva þetta niður. Ungverjinn er í sér íbúð og hefur verið í litlu samneyti við aðra. Þeir fara báðir aftur í próf á mánudaginn eftir helgi, til þess að taka af allan vafa, og það er í raun ekki mikið meira um það að segja,“ sagði Kolbeinn að endingu.

Fjölnir fær Fylki í heimsókn á morgun, laugardag, klukkan 14:00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×