Enski boltinn

Aðeins Sir Alex Ferguson var fljótari en Mourinho

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sir Alex Ferguson og José Mourinho á hliðarlínunni fyrir þó nokkrum árum.
Sir Alex Ferguson og José Mourinho á hliðarlínunni fyrir þó nokkrum árum. Adam Davy/Getty Images

Í gærkvöld vann Tottenham Hotspur 1-0 sigur á Everton í ensku úrvalsdeildinni þökk sé sjálfsmarki Michael Keane. Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson lék sem vinstri vængmaður í 4-4-2 leikkerfi Carlo Ancelotti hjá Everton og náði sér ekki á strik. Gylfi Þór var tekinn af velli á 67. mínútu leiksins.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og ef Hugo Lloris og Heung-Min Son, leikmenn Tottenham, hefðu ekki farið að rífast á leið inn í búningsklefa í hálfleik væri þessi leikur líklega gleymdur og grafinn.

Sigur Tottenham er þó sérstaklega merkilegur fyrir þær sakir að Mourinho var þar með að vinna sinn 200. leik í ensku úrvalsdeildinni. Portúgalski þjálfarinn hefur ekki verið sigursæll undanfarin misseri en hans fyrstu ár í deildinni lögðu grunninn að þessum áfanga.

Hann hefur stýrt Chelsea, Manchester United og Tottenham í samtals 326 leikjum, hafa 200 af þeim unnist.

Aðeins einn maður var fljótari að ná 200 sigrum sem þjálfari í ensku úrvalsdeildinni. Það var Sir Alex Ferguson, fyrrum þjálfari Manchester United. Það tók hann 322 leiki að ná þessum merka áfanga.

Sigur Tottenham þýðir að liðið er nú með 48 stig í 8. sæti þegar fimm umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×