Kennslanefnd Ríkislögreglustjóra telur sig hafa borið kennsl á einstaklingana þrjá sem létu lífið í brunanum á Bræðraborgarstíg í lok júní. Í skeyti frá lögreglu kemur fram að hin látnu hafi öll verið pólskir ríkisborgarar sem störfuðu hér á landi, en Efling hafði áður greint frá því að tvö þeirra hafi verið félagsmenn stéttarfélagsins.
Ræðismaður Póllands hér á landi sagði í samtali við fréttastofu að pólska samfélagið á Íslandi væri í sárum vegna málsins. Gengið væri út frá því að hin látnu væru Pólverjar á þrítugs- og fertugsaldri. Í orðsendingu lögreglunnar segir jafnframt að einn sem slasaðist í brunanum sé á gjörgæslu en þjóðerni hans er ekki tilgreint.
Lögreglan segist ekki ætla að gefa upp nöfn hinna látnu, að ósk aðstandenda, og að hún muni ekki tjá sig frekar um framvindu rannsóknarinnar að svo stöddu.
Málið er rannsakað sem sakamál og er áætlað að hún muni taka um tvo til þrjá mánuði. Slökkviliðið telur sig hafa rökstuddan grun um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum. Hinn grunaði var handtekinn og sætir nú gæsluvarðhaldi.
Vinir og aðstandendur tveggja þeirra sem létust í brunanum hófu hópfjármögnun svo að hægt væri að flytja þau til Póllands. Á upplýsingasíðu söfnunarinnar eru hin látnu sögð hafa heitið Szczepan og Justyna.