Íslenski boltinn

Skoski framherjinn hjá Gróttu laus úr sóttkví

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kieran McGrath með Ágústi Gylfasyni, þjálfara Gróttu.
Kieran McGrath með Ágústi Gylfasyni, þjálfara Gróttu. mynd/grótta

Skoski framherjinn Kieran McGrath, sem Grótta fékk frá Celtic á dögunum, lauk sóttkví í gær. Hann byrjar að æfa með Seltirningum í dag.

Grótta sendi McGrath í sóttkví við komuna til landsins. „Við ætlum að fara ákveðna leið vegna aðstæðna. Hann fer í skimun og svo í ákveðna sóttkví í nokkra daga. Hann fer svo aftur í skimun á þriðjudaginn. Hann kemur ekkert inn í hópinn fyrr en á fimmtudaginn,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, í samtali við Fótbolta.net á föstudaginn.

Vegna sóttkvíarinnar missti McGrath af leikjum Gróttu gegn HK og Fjölni í Pepsi Max-deildinni. 

Seltirningar náðu í sitt fyrsta stig í efstu deild gegn HK-ingum á laugardaginn, 4-4, og unnu svo sinn fyrsta sigur í efstu deild þegar þeir lögðu Fjölnismenn að velli í gær, 0-3.

McGrath gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Gróttu þegar liðið tekur á móti ÍA í 6. umferð Pepsi Max-deildarinnar á sunnudaginn.

McGrath er nítján ára og hefur verið á mála hjá Celtic síðan 2015. Hann kom til liðsins frá Hibernian.


Tengdar fréttir

Gústi Gylfa: Stíflan er brostin

„Við stigum stórt skref í síðasta leik, fullt af mörkum og eitt stig til okkar. Við fylgdum því eftir með frábærum sigri hér á Fjölnisvelli og ég er gríðarlega stoltur af liðinu,“ sagði Ágúst Gylfason þjálfari Gróttu eftir fyrsta sigur Seltirninga í efstu deild frá upphafi.

Grótta fær til sín skoskan sóknarmann

Grótta hefur fengið liðsstyrk fram á við fyrir komandi átök í Pepsi Max deild karla. Hann heitir Kieran McGrath og kemur frá skoska stórveldinu Celtic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×