Fótbolti

Sánchez komið að átta mörkum eftir Covid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexis Sánchez fagnar marki sínu fyrir Inter gegn Spal í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.
Alexis Sánchez fagnar marki sínu fyrir Inter gegn Spal í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. getty/Alessandro Sabattini

Þótt það hafi litið þannig út hjá Manchester United er Alexis Sánchez ekki búinn að gleyma því hvernig á að spila fótbolta.

Sílemaðurinn skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar Inter vann stórsigur á Spal, 0-4, í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Sánchez hefur leikið sérstaklega vel eftir að keppni hófst aftur eftir kórónuveirufaraldurinn og komið með beinum hætti að átta mörkum í ítölsku deildinni. Hann hefur skorað tvö mörk og gefið sex stoðsendingar.

Sánchez lagði upp eitt marka Inter í 3-3 jafntefli við Sassuolo, skoraði eitt mark og lagði upp tvö í 6-0 sigri á Brescia, gaf tvær stoðsendingar í 3-1 sigri á Torino og kom svo að tveimur mörkum gegn Spal í gær eins og áður sagði.

Eftir eitt og hálft vonbrigðatímabil hjá United fékk Inter Sánchez í fyrra. Sílemaðurinn byrjaði ágætlega hjá ítalska liðinu en meiddist síðan og var lengi frá. En eftir kórónuveirufaraldurinn hefur sýnt að hann er ekki dauður úr öllum æðum.

Sánchez hefur leikið sautján leiki í ítölsku deildinni á tímabilinu, þar af sjö í byrjunarliði, skorað þrjú mörk og gefið sjö stoðsendingar.

Antonio Candreva, Cristiano Biraghi og Roberto Gagliardini voru einnig á skotskónum fyrir Inter gegn Spal í gær. Með sigrinum komst liðið upp í 2. sæti ítölsku deildarinnar. Fimm umferðum er ólokið.

Mörkin úr leik Spal og Inter má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sánchez öflugur í stórsigri Inter



Fleiri fréttir

Sjá meira


×