Erlent

Grunur um í­kveikju í dóm­kirkjunni í Nan­tes

Sylvía Hall skrifar
Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. Vísir/AP

Slökkviliðsmenn hafa náð tökum á eld sem kom upp í dómkirkjunni í borginni Nantes í Frakklandi í morgun. Tilkynning um eldinn barst klukkan 07:44 að staðartíma.

Yfirvöld munu rannsaka brunann en franskir miðlar greina frá því að grunur leiki á að um íkveikju sé að ræða. Viðbragðsaðilum hafi þó tekist að koma í veg fyrir stórtjón þó skýr ummerki eldsins megi sjá á kirkjunni og útlitið hafi verið slæmt um tíma. 

Saint-Pierre-et-Saint-Paul dómkirkjan er sögufræg og hófst bygging hennar árið 1434. Alls tók það 457 ár að ljúka verkinu og var framkvæmdum því ekki lokið fyrr en árið 1891.

Samkvæmt slökkviliðinu eru skemmdirnar að mestu bundnar við orgel kirkjunnar, sem virðist vera gjörsamlega ónýtt. Hætta er á að pallurinn þar sem orgelið er gæti hrunið vegna skemmdanna og eru viðbragðsaðilar enn að störfum.

Fyrir rúmu ári síðan kom eldur upp í annarri sögufrægri dómkirkju í Frakklandi, Notre Dame, og fór hún illa úr brunanum. Um mun stærri bruna var að ræða í Notre Dame, en Frakklandsforseti tilkynnti fyrr í mánuðinum að turn kirkjunnar yrði endurbyggður í upprunalegri mynd.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×