Fótbolti

Ronaldo skoraði tvö, setti met og færði Juventus nær enn einum titlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar með Adrian Rabiot og Leonardo Bonucci.
Cristiano Ronaldo fagnar með Adrian Rabiot og Leonardo Bonucci. getty/Stefano Guidi

Cristiano Ronaldo skoraði bæði Juventus þegar liðið lagði Lazio að velli, 2-1, í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. Með sigrinum færðist Juventus nær níunda meistaratitlinum í röð.

Fyrra mark Ronaldos var hans fimmtugasta í ítölsku úrvalsdeildinni. Enginn leikmaður frá tímabilinu 1994-95 hefur þurft jafn fáa leiki (61) til að skora 50 mörk í ítölsku úrvalsdeildinni. Ronaldo bætti met Andriy Shevchenko sem skoraði 50 mörk í fyrstu 68 leikjum sínum fyrir AC Milan.

Ronaldo er jafnframt fyrsti leikmaðurinn sem skorar fimmtíu mörk í efstu deild á Ítalíu, Spáni og Englandi. 

Portúgalinn skoraði 84 mörk í 196 leikjum fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni, 311 mörk í 292 leikjum í spænsku úrvalsdeildinni og hefur skorað 51 mark í 61 leikjum fyrir Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni.

Ronaldo kom Juventus yfir í leiknum gegn Lazio í gær með marki úr vítaspyrnu á 51. mínútu. Þremur mínútum síðar bætti hann öðru marki við eftir undirbúning Paolos Dybala. Þetta var níunda mark Ronaldos í níu deildarleikjum síðan keppni hófst á ný í júní.

Ciro Immobile minnkaði muninn fyrir Lazio á 83. mínútu en nær komust gestirnir frá Róm ekki. Immobile og Ronaldo eru markahæstir í ítölsku úrvalsdeildinni með 30 mörk hvor.

Juventus er með átta stiga forskot á toppi deildarinnar þegar fjórum umferðum er ólokið. Lazio er í 4. sætinu en liðinu hefur ekki gengið vel eftir að keppni hófst á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.

Mörkin úr leik Juventus og Lazio má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Ronaldo sá um Lazio



Fleiri fréttir

Sjá meira


×