Lið FH situr á botni Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta og hefur tapað sex af sjö leikjum sínum til þessa. Sérfræðingar Pepsi Max markanna rýndu í spilamennsku liðsins.
FH tapaði 3-0 gegn KR í gærkvöld eftir að hafa tapað 1-0 á heimavelli gegn ÍBV síðasta mánudag. Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir segir ljóst að FH geti gert mun betur með því að laga frekar einfalda hluti í sínu spili, að minnsta kosti ef mið er tekið af leiknum við ÍBV. Þar mynduðust stór svæði til að spila boltanum inn í þegar bakverðir FH komu fram með boltann.
„Þær hefðu getað nýtt þessi svæði mikið betur með einföldum sendingum. Hún [Valgerður Ósk Valsdóttir] er ekki með neina möguleika. Þarna á Helena [Ósk Hálfdánardóttir] að vera mætt og Sísí [Sigríður Lára Garðarsdóttir] eða einhver annar miðjumaður komin í lausa svæðið,“ sagði Bára þegar eitt dæmið um uppspil FH var skoðað.
Ekki mikið lakari hópur en hjá mörgum liðum
„Það eru alveg gæði í þessu liði og þessum leikmönnum. Ef maður horfir á hópinn þá er þetta ekki mikið lakari hópur en hjá mörgum liðum í þessari deild. En það vantar þessa einföldu hluti, eins og að koma í svæðin, bjóða sig og reyna að færa boltann fram völlinn,“ sagði Bára en sjá má nokkur skýr dæmi um þetta í innslaginu hér að neðan.
„Í stað þess voru þær alltaf að lyfta boltanum, gegn fimm manna varnarlínu, sem er rosalega auðvelt að verjast þegar þú ert í jafnvægi. Þetta var bara auðvelt fyrir ÍBV,“ sagði Bára.