Erlent

Handtekinn á nýjan leik vegna brunans í Nantes

Andri Eysteinsson skrifar
Frá vinnu á vettvangi í síðustu viku.
Frá vinnu á vettvangi í síðustu viku. AP/Laetitia Notarianni

Lögreglan í frönsku borginni Nantes hafa handtekið 39 ára gamlan sjálfboðaliða í annað sinn í tengslum við brunann í dómkirkju borgarinnar í síðustu viku.

Maðurinn, sem starfaði sem sjálfboðaliði og bar ábyrgð á því að læsa kirkjunni sama dag og eldurinn blossaði upp, var handtekinn samdægurs og yfirheyrður til að fara yfir ósamræmi í vaktaskipulagi hans. Verjandi mannsins sagði þá að ekkert benti til þess að skjólstæðingur sinn tengdist eldinum með nokkrum hætti.

Eldurinn kom upp á þremur mismunandi stöðum innan kirkjubyggingarinnar og eyðilagðist orgel kirkjunnar í eldsvoðanum. Þá urðu einnig skemmdir á gluggum og málverkum. Grunur kom strax upp um að um íkveikju væri að ræða og voru engin ummerki um innbrot.

Saksóknarinn Pierre Sennes tilkynnti í dag að vegna nýrra vísbendinga í málinu hafi maðurinn verið handtekinn á nýjan leik. Er nú óskað eftir gæsluvarðhaldi vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×