Fótbolti

Kominn með 23 mörk | Ron­aldo síðastur til að ná þeim á­fanga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lukaku fagnar öðru marka sinna gegn Genoa um helgina.
Lukaku fagnar öðru marka sinna gegn Genoa um helgina. EPA-EFE/LUCA ZENNARO

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku er búinn að skora 23 mörk fyrir Inter Milan í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Er hann fyrsti nýliði félagsins sem nær þeim áfanga síðan Ronaldo gerði það árið 1997.

Belginn gekk í raðir ítalska úrvalsdeildarfélagsins Inter Milan undir lok félagaskiptagluggans síðasta sumar. Belginn hafði fengið leið á lífinu í Manchester þar sem hann lék með Man United og vildi færa sig um set.

Það gekk eftir og þrátt fyrir mikla gagnrýni hefur markaskorun Lukaku eflaust verið framar vonum. Hann er búinn að skora 23 mörk fyrir lið Antonio Conte en fara þarf aftur til síðustu aldar til að finna leikmann sem skoraði jafn mikið á sinni fyrstu leiktíð hjá Inter.

Sá leikmaður er enginn annar en hinn brasilíski Ronaldo eða Ronaldo Luís Nazário de Lima eins og hann heitir fullu nafni. Var hann á þeim tíma dýrasti leikmaður í heimi. Ronaldo átti mjög gott tímabil með liðinu en líkt og Lukaku þurfti hann að sætta sig við annað sæti deildarinnar á eftir Juventus. 

Því miður fyrir bæði Inter og Ronaldo þá meiddist hann illa á hné en áður en það gerðist var hann besti leikmaður í heimi.

Áfanganum náði Lukaku um helgina er Inter lagði Genoa af velli 3-0. Lukaku skoraði tvívegis í leiknum en þriðja markið gerði Alexis Sanchez. 

Deildinni í ár er reyndar ekki lokið og Inter gæti endað í 4. sæti þar sem bæði Atalanta og Lazio eru aðeins stigi á eftir Lukaku og félögum.

Lukaku er sem stendur í þriðja sæti yfir markahæstu menn deildarinnar en þeir gullskórinn virðist ætla að enda hjá Ciro Immobile, framherja Lazio. Hefur hann skorað 34 mörk á tímabilinu á meðan Portúgalinn Cristiano Ronaldo er með 31 mark.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×