Erlent

Telur að Trump láti ekki þegjandi og hljóða­laust af em­bætti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings líkti Donald Trump Bandaríkjaforseta við ítalska einræðisherrann og fasistann Benito Mussolini í dag. Þá kvað þingmaðurinn ólíklegt að Trump léti þegjandi og hljóðalaust af embætti, ef svo færi að hann næði ekki endurkjöri í forsetakosningum í nóvember.

„Ég held ekki að Donald Trump sé á förum úr Hvíta húsinu,“ sagði Jim Clyburn, demókrati og þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í viðtali í sjónvarpsþættinum State of the Union á CNN í dag.

Andstæðingar Trumps, sem og flokksbræður, hafa brugðist ókvæða við eftir að hann ýjaði að því fyrir helgi að forsetakosningunum í nóvember yrði frestað. Trump hefur ekki völd til þess að fresta kosningunum.

Fulltrúardeildarþingmaðurinn Jim Clyburn.Vísir/getty

„Hann hyggur ekki á sanngjarnar og fjötralausar kosningar,“ sagði Clyburn. Hann teldi að Trump myndi reyna allt sem í sínu valdi stæði til að halda sér í embætti biði hann ósigur í kosningunum.

Þá vék Clyburn að ummælum um Trump sem hann lét falla í viðtali við PBS-sjónvarpsstöðina á föstudag. Þar líkti Clyburn þeim síðarnefnda við Adolf Hitler. Í viðtalinu við CNN í dag sagði Clyburn að Trump væri þó líkari öðrum einræðisherra, áðurnefndum Mussolini, en Hitler. Þá líkti Clyburn loks Vladímír Pútín Rússlandsforseta við Hitler.

Trump bar því fyrir sig á fimmtudag að forsetakosningarnar í nóvember yrðu litaðar stórfelldu kosningasvindli, þar sem yfirvöld fjölda ríkja vilja leyfa íbúum að greiða póstatkvæði vegna faraldurs kórónuveiru. Þess vegna yrði þeim mögulega frestað.


Tengdar fréttir

Trump segist ætla að banna Tiktok

Kínverski samfélagsmiðillinn Tiktok verður bannaður í Bandaríkjunum, að sögn Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hann boðar tilskipun þess efnis, jafnvel strax í dag. Forsetanum hugnast ekki að bandarískt fyrirtæki eins og Microsoft kaupi starfsemi Tiktok í Bandaríkjunum.

Trump ýjar að því að kosningum verði frestað

Donald Trump Bandaríkjaforseti ýjaði að því að forsetakosningunum sem eiga að fara fram í nóvember verði mögulega frestað. Í tísti sem forsetinn sendi frá sér í dag heldur hann því rakalaust fram að stórfelld svik verði framin í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×