Erlent

Viðurkenndi öðru sinni að hafa myrt ríkisstjórann

Andri Eysteinsson skrifar
Réttað er yfir Stephan Ernst í Frankfurt í sambandsríkinu Hesse.
Réttað er yfir Stephan Ernst í Frankfurt í sambandsríkinu Hesse. Getty/Kai Pfaffenbach

Öfgamaðurinn Stephan Ernst hefur viðurkennt öðru sinni en nú frammi fyrir dómara í Frankfurt að hafa myrt stjórnmálamanninn Walter Lübcke, fyrrverandi ríkisstjóra þýska sambandsríkisins Hesse.

Walter Lübcke fannst látinn í byrjun júní 2019 og hafði þá verið skotinn í höfuðið af stuttu færi. Þrettán dögum eftir dauða Lübcke var hægri-öfgamaðurinn Stephan Ernst handtekin, grunaður um verknaðinn. Lübcke var flokksbróðir Merkel Þýskalandskanslara og hafði löngum talað fyrir réttindum innflytjenda og hælisleitenda. Voru skoðanir hans óvinsælar í ýmsum kreðsum öfgamanna og bárust honum reglulega líflátshótanir.

Talið er að Stephan Ernst hafi ásamt félaga sínum Markus H, sem einnig er ákærður í málinu, mætt á fjöldafund þar sem Lübcke var á meðal ræðumanna. Eftir fundinn hafi Ernst leitast eftir því að myrða stjórnmálamanninn.

Í dómsal í dag viðurkenndi Ernst að hafa skotið Lübcke til bana við heimili ríkisstjórans og sagðist hann sjá eftir því að hafa látið skoðanir sínar stýra sér með þessum hætti. „Enginn ætti að deyja af því að skoðanir hans eru á öndverðum meiði,“ sagði Ernst sem einnig hefur verið ákærður fyrir morðtilraun eftir að hafa stungið írakskan hælisleitanda árið 2016.

Ernst sagði Markus H, sem kenndi honum að beita skotvopni, hafa tekið þátt í verknaðinum en ekki er talið að Markus H hafi verið viðstaddur glæpinn.

Ernst hafði áður játað sök sína en dró játninguna að endingu til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×