Erlent

Japanir vísa ásökunum Ghosn á bug

Kjartan Kjartansson skrifar
Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans, segir ásakanir Ghosn ekki eiga við rök að styðjast.
Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans, segir ásakanir Ghosn ekki eiga við rök að styðjast. AP/Eugene Hoshiko

Dómsmálaráðherra Japans segir að ásakanir Carlos Ghosn, fyrrverandi stjórnarformanns Nissan, um að hann hafi verið órétti beittur séu ekki studdar neinum rökum. Ghosn tjáði sig í fyrsta skipti opinberlega í gær eftir að hann flúði Japan á meðan hann gekk laus gegn tryggingu rétt fyrir áramót.

Á blaðamannafundi í Beirút lýsti Ghosn því sem hann sagði „grimmilega“ meðferð sem hann hefði hlotið hjá japönskum saksóknurum. Ghosn er ákærður fyrir fjármálalegt misferli í starfi í Japan. Hann fullyrðir að saksóknararnir hafi yfirheyrt hann í allt að átta klukkustundir á dag án þess að hann fengi að hafa lögmann með sér. Þeir hafi reynt að þvinga játningu út úr honum.

Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans, svaraði Ghosn í yfirlýsingu í morgun og sakaði hann um að fara með fleipur um japanskt réttarkerfi til að réttlæta ólöglegan flótta sinn frá landinu. Flótti Ghosn væri glæpur sem ekki ætti að líða í neinu ríki, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Mín upplifun af því að hlusta á hann var sú að það voru fáar yfirlýsingar sem voru studdar nokkrum sönnunum. EF hann vill sanna sakleysi sitt ætti hann að koma fyrir sanngjörn réttarhöld hér,“ sagði Mori.

Ghosn fullyrti í gær að hann ætti „enga möguleika“ á sanngjörnum réttarhöldum í Japan. Honum tókst að lauma sér úr landi og flúði til Líbanon þangað sem hann á ættir að rekja.


Tengdar fréttir

Ghosn flúði frá Japan og til Líbanon

Carlos Ghosn, fyrrverandi yfirmaður Nissan og Renault, hefur flúið frá Japan þar sem hann átti fangelsisdóm yfir höfði sér og á hann að hafa óttast að fá ekki sanngjörn réttarhöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×