Erlent

Foreldrar Jozefs litla fá sex milljarða í bætur frá IKEA

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá blaðamannafundi vegna málsins í gær.
Frá blaðamannafundi vegna málsins í gær. Vísir/AP

IKEA í Bandaríkjunum mun greiða foreldrum drengs, sem lést þegar IKEA-kommóða féll á hann fyrir þremur árum, 46 milljónir Bandaríkjadala, eða tæpa sex milljarða íslenskra króna, vegna málsins.

Sjá einnig: Áttunda dauðaslysið vegna MALM kommóðu: „Það þarf að veggfesta allar kommóður, sama hvað þær heita“

Joleen og Craig Dudek stefndu IKEA árið 2018 vegna andláts sonar síns, Jozefs. Jozef var tveggja ára þegar hann varð undir kommóðu af gerðinni MALM og lést af sárum sínum. Hann er sagður hafa hálsbrotnað og svo kafnað undir kommóðunni.

Forsvarsmenn IKEA sögðu í yfirlýsingu að þeir séu þakklátir fyrir það að sátt hafi náðst í málinu. Fyrirtækið sé staðráðið í því að tryggja öryggi viðskiptavina sinna. „Enn og aftur vottum við [fjölskyldunni] dýpstu samúð okkar,“ segir í yfirlýsingunni.

Í frétt CBS um málið er haft eftir lögmönnum að um sé að ræða hæstu upphæð sem greidd hefur verið í máli sem þessu.

Banaslys af völdum Malm-kommóða hafa verið nokkuð tíð en í frétt CBS segir að tíu dauðsföll tengd kommóðunum hafi verið skráð síðustu ár. IKEA í Bandaríkjunum innkallaði 29 milljónir MALM-kommóða vegna slysanna árið 2016 og hætti um leið sölu á kommóðunum í landinu.

Sama ár samdi húsgagnarisinn við þrjár bandarískar fjölskyldur um greiðslu 50 milljóna Bandaríkjadala í skaðabætur eftir að þrjú börn létust í banaslysum tengdum Malm-kommóðum. Upphæðinni var deilt á milli fjölskyldnanna þriggja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×