Íranska þingið hefur samþykkt lagafrumvarp þar sem bandaríska varnarmálaráðuneytið og bandarískir hermenn eru skilgreind sem „hryðjuverkamenn“.
AP segir frumvarpið speglun á ákvörðun sem tekin var af Donald Trump Bandaríkjaforseta í apríl þar sem íranski byltingarvörðurinn er skilgreindur sem „hryðjuverkasamtök“.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið beitti fyrir sig skilgreiningu á byltingarverðinum sem hryðjuverkasamtök þegar ákveðið var að ráðast á hershöfðingjann Qasem Soleimani í Bagdad fyrir helgi.
Íranir hafa hótað hefndum vegna árásar Bandaríkjamanna og sagði leiðtogi byltingarvarðarins í morgun að „kveikt yrði í“ stöðum þar sem stuðnings Bandaríkjanna nyti við.
Hossein Salami lét orðin falla í ræðu á aðaltorginu í Kerman, heimaborgar Soleimani í suðausturhluta landsins, þar sem Soleimani verður borinn til grafar í dag. Hrópuðu þúsundir „Dauði yfir Ísrael!“ sem svar við orðum Salami.
Áætlað er að um milljón manns hafi safnast saman í írönsku höfuðborginni Teheran í gær til að minnast herforingjans fallna til álitin var þjóðhetja í heimalandinu.
Írönsk stjórnvöld hafa nú þegar sagt sig óbundin af ákvæðum kjarnorkusamkomulagsins frá árinu 2015 vegna árásar Bandaríkjahers.
