Erlent

Maður sem stakk vegfarendur skotinn til bana nærri París

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn tryggja vettvang í Hautes-Bruyers-garðinum.
Lögreglumenn tryggja vettvang í Hautes-Bruyers-garðinum. Vísir/EPA

Lögreglan í París skaut mann til bana sem stakk að minnsta kosti fjóra vegfarenda í almenningsgarði í bænum Villejuif nærri París í dag. Tveir eru sagðir hafa særst alvarlega.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að lögreglumenn hafi elt árásarmanninn uppi og skotið hann nærri garðinum. Óstaðfestar heimildir hermi að maðurinn hafi verið vopnaður sprengjuvesti. Lögregla hefur beðið fólk um að halda sig frá Hautes-Bruyers-garðinum á meðan aðgerðir standa þar yfir.

Misvísandi fréttir hafa verið um hvort að tvö fórnarlömb árásarmannsins hafi látist af sárum sínum. BBC, sem sagði í fyrstu að tveir væru látnir, segir nú að tveir séu alvarlega sárir. Árásin hafi átt sér stað fyrir utan stórverslun og er talið að maðurinn hafi valið fórnarlömbin af handahófi.

AP-fréttastofan hefur aftur á móti eftir Vincent Jeanbrun, bæjarstjóra í Villejuif, í viðtali við BFM-TV-sjónvarpsstöðina, að maðurinn hefði ráðist á fólk í garði en svo flúið að verslunarmiðstöð þar sem lögreglumenn skutu hann. Yves Lefebvre, talsmaður félags lögreglumanna, segir að lögreglumennirnir hafi skotið árásarmanninn ítrekað af ótta við að hann gæti sprengt sig í loft upp.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×