Lífið

Ís­lendinga­ný­lendan í Ori­huela: „Besta á­kvörðun sem ég hef tekið að flytja til Spánar“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar

„Mér líður svo vel hérna. Ég er svo hamingjusöm að hafa tekið þessa ákvörðun, þetta var besta ákvörðun sem ég hef tekið,” segir Inga Jóhannsdóttir. Inga ákvað að fara á eftirlaun fyrir tveimur árum, 65 ára gömul, og keypti sér þá hús í Orihuela á Spáni, skammt frá Alicante.

Lóa Pind Aldísardóttir heimsótti samfélag Íslendinga í Orihuela ásamt Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni fyrir þáttaröðina „Hvar er best að búa?” og sjá má afraksturinn í þætti kvöldsins. Í Orihuela og nærsveitum er nú stór Íslendinganýlenda. Guðmundur Þór Sigurbjörnsson, formaður Íslendingafélagsins á svæðinu, telur að um 1000 Íslendingar búi þar að jafnaði yfir veturinn. Þar að auki, segir hann, að um 3000 eignir á svæðinu séu í eigu Íslendinga.

Lóa og Egill kynntust daglegu lífi fjögurra Íslendinga fyrir þátt kvöldsins, þeim Ingu (67 ára), Hilmars B. Jónssonar matreiðslumanns (76 ára) og svo hjónanna Friðbjargar Arnþórsdóttur (57 ára) og Guðmundar Þórs Sigurbjörnssonar (73 ára). Öll eiga þau sína sögu. Friðbjörg var nær dauða en lífi fyrir fáeinum árum en lifir nú eins og blóm í eggi á Spáni.

Guðmundur er fyrrverandi smiður og fær rækilega útrás fyrir félagsþörf sína í Íslendingasamfélaginu. Inga sá fram á að neyðast til að fara á leigumarkaðinn í Reykjavík en gat keypt sér þriggja hæða hús í Orihuela og Hilmar, sem starfaði í 12 ár sem kokkur Vigdísar forseta, segir að hann hefði hugsanlega getað skrimt á eftirlaununum á Íslandi en lifi góðu lífi á þeim á Spáni.

Í brotinu sem hér fylgir heyrum við í nokkrum þeirra sem rætt er við í fimmta þætti af „Hvar er best að búa?” sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 19:10. Fyrstu fjórir þættirnir í röðinni voru sýndir fyrir jól en nú er þráðurinn tekinn upp að nýju. Í þessari átta þátta seríu heimsækir Lóa Pind fólk og fjölskyldur í níu löndum í fjórum heimsálfum.

Framleiðandi og leikstjóri þáttanna er Lóa Pind Aldísardóttir, myndatökumaður þessa þáttar er Egill Aðalsteinsson, klippingu önnuðust Tumi Bjartur Valdimarsson og Ólafur Þór Chelbat. Framleitt af Lóa Production fyrir Stöð 2.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×