Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt. Í morgun voru alls níu aðilar vistaðir í fangaklefa.
Um klukkan eitt eftir miðnætti var maður handtekinn í miðbæ Reykjavíkur grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Að blóðtöku lokinni var honum sleppt en hann var aftur handtekinn nokkru síðar á skemmtistað í miðbænum þar sem hann var sagður hafa ógnað fólki með hníf. Hann var í framhaldi af því vistaður í fangaklefa, er fram kemur í dagbók lögreglu.
Rúmlega níu í gærkvöld var ökumaður handtekinn í Breiðholti grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eftir að hann hafði ekið á umferðarskilti og sat bifreið hans föst í snjóskafli.
Á ellefta tímanum voru þrír aðilar handteknir í Hafnarfirði í tengslum við líkamsárás og gista þeir fangageymslur. Árásin reyndist ekki vera alvarleg.
Einnig var maður handtekinn grunaður um húsbrot í austurbæ Reykjavíkur, tveir handteknir grunaðir um hnupl úr verslun og nokkuð um fleiri tilvik þar sem ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.
