Írönsk stjórnvöld hafa tilkynnt að íranski herinn hafi, af misgáningi, skotið niður úkraínsku farþegaflugvélina sem hrapaði í nágrenni Tehran á dögunum. 176 manns voru um borð í vélinni sem var á leið til Kænugarðs og létust þeir allir. BBC greinir frá.
Í yfirlýsingu sem birt var í ríkissjónvarpi Íran sagði að vegna mannlegra mistaka hafi verið skotið eldflaugum að vélinni eftir að hún flaug of nálægt hernaðarlega viðkvæmum stað. Í yfirlýsingunni sagði einnig að þeim sem bæru ábyrgð á mistökunum yrði refsað.
Írönsk stjórnvöld hafa hingað til neitað að viðurkenna að írönsk eldflaug hafi verið ástæðan fyrir hrapi PS752 á leið til Kænugarðs en þrýstingurinn hafði aukist eftir tilkynningar bandarískra og kanadískra stjórnvalda sem greindu frá þeim grunsemdum sínum að hrapið mætti rekja til íranska hersins.
Sjá einnig: Þvertaka enn fyrir að flugvélin hafi orðið fyrir eldflaug
Í yfirlýsingunni segir að vegna aukinnar spennu í samskiptum Íran og Bandaríkjanna hafi íranski herinn verið reiðubúinn til að mæta öllu. Það ásamt mannlegum mistökum olli því að skotið var á vélina.