Fjöldi lögreglumanna helst ekki í hendur við gerð samfélagsins og býr ekki yfir nægilegum styrk að mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Formaður Landssamband lögreglumanna segir átta ráðherra málaflokksins hafa verið upplýsta um stöðuna en talað fyrir daufum eyrum.
Í Kompás sem birtur var á Vísi í morgun var farið yfir stöðuna í löggæslumálum á Íslandi og birt sláandi myndband þar sem lögreglumenn á Suðurlandi veittu ö lvuðum ökumanni eftirför. Sá stofnaði lífi fjölda manns í hættu með hátterni sínu og keyrði meðal annars lögreglubíl út af veginum.
Einungis níu dagar eru síðan ökumaður undir áhrifum ók framan á annan bíl á Sandgerðisvegi en lögreglan veiti ökumanninum eftirför. Í árekstrinum slösuðust tveir í öðrum bíl, þar af annar þeirra alvarlega.
Sjá einnig: Eftirför endaði með ósköpum
Formaður Landssambands lögreglumanna hefur áhyggjur af álaginu
Lögreglumenn sem rætt var við eru sammála um að aukin harka og ofbeldi mæti þeim í útköllum sem þeir sinna.
„Við höfum svo sem margítrekað bent á það að álagið er orðið gríðarlegt og búið að vera gríðarlegt lengi,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssamband lögreglumanna.
Lögreglumönnum hefur fækkað á meðan málum fjölgar, samanlagt jafnvel í tugum prósenta. Árið tvö þúsund og átján voru menntaðir lögreglumenn á Íslandi 613 og íbúafjöldinn rúmlega 348 þúsund. Að því viðbættu komu tæplega tvær komma fjórar milljónir ferðamanna til landsins. Árið 2004 voru lögreglumenn 669 á meðan íbúafjöldinn var í rúmlega 293 þúsund.

Hefur talað fyrir daufum eyrum átta dómsmálaráðherra
Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir að árið 2013 hafi innanríkisráðherra verið bent á að menntaðir lögreglumenn þyrftu að vera 840. Síðan þá hefur samfélagið þróast en frekar og ferðamannastraumurinn gríðarlegur.
„Við höfum bent á þessa undirmönnun sem er búin að vera viðvarandi í lögreglunni í fjölda mörg ár. Nú ekki færri en átta ráðherrar dómsmála hafa komið að þessu og fengið nákvæmlega sömu upplýsingar, en það stendur allt á sama stað og það gerist ekki neitt. Það er glapræði hvernig þessum málum er háttað í dag og enn og aftur við erum búin að margítreka og benda á þessar staðreyndir sem að birtust í skýrslu ríkislögreglustóra til ráðuneytisins fyrir nokkrum vikum síðan, sem er ekkert nema staðfesting á því sem við höfum áður haldið fram,“ segir Snorri.