Fótbolti

Padova mistókst að setja pressu á liðin fyrir ofan sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emil í leik með íslenska landsliðinu.
Emil í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty

Padova, lið Emils Hallfreðssonar, gerði í kvöld 1-1 jafntefli er liðið mætti Carpi á útivelli í ítölsku C-deildinni. Var þetta fyrsti leikur Padova undir stjórn Andrea Mandorlini en sá þjálfaði Emil hjá Hellas Verona fyrir nokkrum árum.

Padova komst yfir á 21. mínútu þökk sé marki króatíska varnarmannsins Anton Krešić. Var það eina mark fyrri hálfleiks og gestirnir í Padova því yfir er liðin gengu til búningsherbergja.

Í upphafi síðari hálfleiks fékk Emil gult spjald og svo á 75. mínútu jöfnuðu Carpi metin eftir að Tommaso Biasci kom knettinum í netið.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 1-1. Padova er sem fyrr í 5. sæti með 40 stig þegar 23 umferðir eru búnar í B-riðli C-deildarinnar. Carpi er í 2. sætinu með 46 stig en hefði Padova landað öllum þremur stigunum hefði liðið komist upp í 4. sætið. Vicenza trónir á toppi riðilsins með 52 stig en efsta sætið fer beint upp í B-deildina.

Emil hefur alltaf verið í byrjunarliði Padova frá því hann gekk til liðs við félagið í upphafi árs.

 


Tengdar fréttir

Fyrrum þjálfari Emils tekinn við Padova

Lið Emils Hallfreðssonar í ítölsku C-deildinni, Calcio Padovem skipti í vikunni um knattspyrnustjóra. Salvatore Sullo var látinn taka poka sinn og í hans stað kom Andrea Mandorlini. Sá er góðvinur Emils Hallfreðssonar en þeir störfuðu saman hjá Hellas Verona á sínum tíma og er Emil mjög spenntur fyrir komandi samstarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×