Fótbolti

Fyrrum þjálfari Emils tekinn við Padova

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emil og Mandorlini fyrir nokkrum árum síðan.
Emil og Mandorlini fyrir nokkrum árum síðan. Vísir/Instagram

Lið Emils Hallfreðssonar í ítölsku C-deildinni, Calcio Padovem skipti í vikunni um knattspyrnustjóra. Salvatore Sullo var látinn taka poka sinn og í hans stað kom Andrea Mandorlini. Sá er góðvinur Emils Hallfreðssonar en þeir störfuðu saman hjá Hellas Verona á sínum tíma og er Emil mjög spenntur fyrir komandi samstarfi.

Emil tjáði sig á Instagram um málið og er einkar ánægður með komu Mandorlini til félagsins.

„Spennandi tímar framundan og aldrei að vita hvað okkur tekst að gera,“ segir Hafnfirðingurinn til að mynda.

Mandorlini stýrði Hellas Verona frá 2010 til 2015 og var Emil mikilvægur hlekkur í frábæru gengi Verona á þeim tíma. Fór liðið upp úr C-deildinni og alla leið upp í ítölsku úrvalsdeildina. Emil yfirgaf svo félagið eftir að Mandorlini hafði fengið sparkið en íslenski miðjumaðurinn gekk þá í raðir Udinese.

Sem stendur er Padova í 5. sæti B-riðils ítölsku C-deildarinnar og í harðri baráttu um að komast upp um deild. Alls eru þrír riðlar og fara sigurvegarar hvers riðils upp um deild. Á meðan fara lið í efri hluta hvers riðils í umspil um laust sæti í B-deildinni.

Instagram póstur Emils

„Fyrir tíu árum síðan lágu leiðir okkar Mister Mandorlini fyrst saman hjá Hellas Verona. Undir hans stjórn fórum við úr C upp í A og náðum góðum árangri þar og t.d rétt misstum af Evrópusæti. Það eru því spennandi tímar framundan og aldrei að vita hvað okkur tekst að gera hérna í Padova.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×