Erlent

Þingmenn að farast úr leiðindum

Samúel Karl Ólason skrifar
Demókratar hafa lýst yfir áhyggjum af því að Repúblikanar hafi ekki nálgast réttarhöldin með opnum hug.
Demókratar hafa lýst yfir áhyggjum af því að Repúblikanar hafi ekki nálgast réttarhöldin með opnum hug. Vísir/AP

Miðað við fyrstu viðbrögð öldungadeildarþingmanna Repúblikanaflokksins, sem hafa rætt við fjölmiðla í hléum á réttarhöldunum gegn Donald Trump, forseta, er ekki útlit fyrir að málflutningur flutningsmanna fulltrúadeildarinnar hafi áhrif á þá. Einhverjir sögðust ekki hafa heyrt neitt sem dugði til að sannfæra þá um að víkja Trump úr embætti og aðrir sögðust þegar hafa gert upp hug sinn um að sýkna hann. Þá virðist sem að þingmenn hafi verið að farast úr leiðindum í salnum.

Repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeildinni (53-47). Tvo þriðju þingmanna þarf til að víkja forseta úr embætti og nánast engar líkur eru á að það muni gerast.

Demókratar hafa lýst yfir áhyggjum af því að Repúblikanar hafi ekki nálgast réttarhöldin með opnum hug. Repúblikanar segja hins vegar að Demókrötum hafi ekki tekist að sannfæra þá.

Þingmaðurinn Mike Braun, sem er Repúblikani frá Indiana, sagði til dæmis að hann myndi líklega sýkna forsetann, nema Demókratar varpi fram nýjum upplýsingum sem sýni málið gegn Trump í nýju ljósi.

Hér er vert að taka fram að Repúblikanar sömdu reglur réttarhaldanna og meinuðu Demókrötum að kalla til vitni og afla frekari gagna.

Sagði mikilvægt að sakfella Trump

Flutningsmenn fulltrúadeildarinnar notuðu gærkvöldið og nóttina til að fara yfir meint brot Trump og segja hann hafa misnotað vald sitt. Adam Schiff, sem leiðir flutninginn varði miklum tíma í að reyna að ná til Repúblikana og bað þá meðal annars um að hugsa sig vel um hvort að þeir gætu verið fullvissir um að Trump myndi setja hag Bandaríkjanna ofar eigin hag.

Trump hefði þegar sýnt ítrekað fram á að hans eigin hagur færi ofar hagi Bandaríkjanna.

Schiff sagði einstaklega mikilvægt að sakfella Trump. Hann ógnaði Bandaríkjunum og ef það sem væri rétt skipti ekki máli lengur væru Bandaríkin í miklum vandræðum.

Leiði meðal þingmanna

Réttarhöldin hafa reynst þingmönnum erfið en þeim er meðal annars meinað að hafa síma og tala sín á milli á meðan réttarhöldin standa yfir. Minnst tveir þingmenn virðast hafa sofnað og aðrir hafa tekið upp á því að leika sér með fidget spinner og bréfskutlur.

Reglurnar segja einnig að þingmenn megi ekki standa upp úr sætum sínum en það hafa minnst níu Demókratar og 22 Repúblikanar gert.

Þingkonan Marsha Blackburn sást lesa bók á meðan réttarhöldin stóðu yfir. Rand Paul sást fylla út krossgátu og gera pappírskutlu. Þar að auki hafa þingmenn sést tala saman, sem er ekki leyfilegt.


Tengdar fréttir

16.241 fölsk eða villandi staðhæfing á þremur árum

Nærri því fimmtungi allra ósanninda sinna varpar Trump fram á Twitter og þar að auki er hann mjög líklegur til að endurtaka lygar ítrekað. Allt í allt hefur hann sagt 400 lygar oftar en þrisvar sinnum.

Lögmenn forsetans krefjast tafarlausrar sýknu

Lögfræðiteymi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem fer með málsvörn hans í réttarhöldum Bandaríkjaþings á hendur forsetanum vegna meintra embættisbrota, hefur krafist þess að forsetinn verði sýknaður með hraði.

Kalla eftir hugrekki meðal öldungadeildarþingmanna

Demókratar vörðu fyrstu lotunni í opnunarræðum sínum til að fara með nánum hætti yfir meint embættisbrot Donald Trump, forseta, og af hverju öldungadeildarþingmenn ættu að sakfella hann og víkja honum úr embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×