Enski boltinn

Bítlarnir höfðu ekki enn gefið út plötu síðast þegar Burnley vann á Old Trafford

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bítlarnir frá Liverpool gáfu út sína fyrstu breiðskífu 1963.
Bítlarnir frá Liverpool gáfu út sína fyrstu breiðskífu 1963. vísir/getty

Burnley gerði góða ferð á Old Trafford og vann Manchester United, 0-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Þetta var fyrsti sigur Burnley á Old Trafford síðan 22. september 1962. Burnley vann þá 2-5 sigur.

Denis Law skoraði fyrra mark United í leiknum en hann hafði gengið í raðir félagsins frá Torino þá um sumarið. Bobby Charlton var fjarri góðu gamni í leiknum og George Best, sá þriðji í þrenningunni frægu, hafði ekki enn leikið sinn fyrsta leik fyrir United.

Í september 1962, þegar Burnley vann United á Old Trafford, höfðu Bítlarnir ekki enn gefið út sína fyrstu plötu. Fyrsta smáskífan, „Love Me Do“, kom út 5. október 1962 og fyrsta breiðskífan, Please, Please Me, 22. mars 1963.

Fyrir leikinn í gær var United ósigrað í tíu deildarleikjum í röð gegn Burnley. Síðasta tapið kom á Turf Moor 19. ágúst 2009. Jóhannes Karl Guðjónsson lék síðustu 17 mínúturnar í liði Burnley í þeim leik. Robbie Blake skoraði eina mark leiksins.

United hefur nú tapað fleiri deildarleikjum en liðið hefur unnið frá því Ole Gunnar Solskjær var ráðinn knattspyrnustjóri þess til frambúðar í lok mars 2019.


Tengdar fréttir

Burnley sótti sigur á Old Trafford

Manchester United mistókst að minnka forskot Chelsea í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið tók á móti Burnley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×