Erlent

Öldungadeildin hafnaði vitnaleiðslum og sögð með því hafa tryggt að Trump verði sýknaður

Eiður Þór Árnason skrifar
Demókratar kölluðu eftir því að vitni yrðu leidd fyrir öldungadeildina en Repúblikanar voru nær allir því mótfallnir og vilja þeir ljúka málinu sem fyrst.
Demókratar kölluðu eftir því að vitni yrðu leidd fyrir öldungadeildina en Repúblikanar voru nær allir því mótfallnir og vilja þeir ljúka málinu sem fyrst. Vísir/AP

Tillaga Demókrata um að kalla til vitni í réttarhöldunum yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta sem fram fara í öldungadeild Bandaríkjaþings var felld í kvöld með naumum meirihluta. Niðurstaðan er sögð nær tryggja að Trump verði sýknaður í öldungadeildinni af ákærum um embættisbrot.

Demókratar kölluðu eftir því að vitni yrðu leidd fyrir öldungadeildina en Repúblikanar voru nær allir því mótfallnir og vilja ljúka málinu sem fyrst. Repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeildinni og kusu þingmenn flokkanna eftir flokkslínum fyrir utan SusanCollins og Mitt Romney, tvo þingmenn Repúblikana, sem kusu með tillögu Demókrata.

Þau atkvæði dugðu ekki til þess að tryggja Demókrötum meirihluta en tillagan var felld með 51 atkvæði gegn 49.

Þar með er ljóst að engin vitni verða kölluð til í öldungadeildinni og því stutt í að réttarhöldunum ljúki. Eins og fyrr segir eru nú allar líkur á því að Trump forseti verði sýknaður.

Trump var ákærður fyrir tvö meint embættisbrot. Annars vegar fyrir að misnota vald sitt og hins vegar fyrir að standa í vegi þingsins varðandi rannsókn fulltrúadeildarinnar á fyrra brotinu.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem Demókratar eru í meirihluta, samþykkti fyrr í mánuðinum að ákæra forsetann fyrir að hafa beitt úkraínsk stjórnvöld þrýsting um að hefja rannsókn á JoeBiden, fyrrverandi varaforseta og einum þeirra sem sækist eftir að verða forsetaefni Demókrata, og syni hans.

Var Trump sakaður um valdníðslu og að hafa hindrað störf fulltrúadeildarinnar. Trump hefur hafnað ásökununum.


Tengdar fréttir

Komið annað hljóð í strokkinn hjá Repúblikönum

Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins virðast margir hverjir hafa stokkið á rök lögmannsins Alan Dershowitz, eins verjanda Donald Trump, forseta, um að þó svo að Trump væri sekur um það sem hann var ákærður fyrir, sé ekki tilefni til að víkja honum úr embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×